Spennandi tímar

Undanfarnar vikur höfum við hjá Pure Natura unnið hörðum höndum í kappi við tímann við að safna jurtum fyrir framleiðslu næsta árs. Það hefur því gefist lítill tími til bloggskrifa en hér kemur stutt uppfærsla á því hvað er í gangi hjá okkur.

Nýjar vörur

Þar sem sl. vetur var óvenju mildur fór allur gróður snemma af stað og segja má að vöxtur hans hafi verið bæði hraður og mikill og allar jurtir u.þ.b. þremur til fjórum vikum fyrr á ferðinni en í eðlilegu árferði. Þetta þýðir að til að ná sem bestu hráefni þarf að vinna hratt og vel að því að ná jurtunum í hús, hverri af annarri, á þeim tíma sem þær eru hvað öflugastar. Við þetta höfum við verið að hamast undanfarnar vikur og gengið alveg ágætlega. Við erum nú langt komnar með að safna tilætluðu magni af birki, baldursbrá og fíflablöðum og nú fer vallhumallinn að verða tilbúinn til vinnslu. Á meðan við vinnum í jurtatínslu stækka fjallalömbin á afréttum landsins og er ekki við öðru að búast en að þau skili sér í góðu ástandi af fjalli næsta haust og eftirláti hágæða hráefni.
Auk þeirra jurta sem við notum í þær vörur sem komu á markað fyrr á þessu ári bætast nú við nokkrar nýjar tegundir, s.s.hvannalauf, fjallagrös, blóðberg, fíflablöð, spánarkerfill og nettlurót. Þessar nýju jurtategundir, ásamt hráefni úr lambainnmat, verða notaðar í spennandi nýjungar í framleiðslu næsta árs. Við stefnum að því að bæta við tveimur nýjum tegundum bætiefna í vörulínu okkar upp úr áramótum. Þessar vörur verða kallaðar Pure Man og Pure Harmony.

Á leið í útrás

Nú eru vörurnar okkar orðnar þokkalega vel kynntar og sjást víða, m.a. í ýmsum heilsuverslunum og í Flugstöðinni í Keflavík. Áhugi heilsuþenkjandi fólks fer einnig vaxandi og hafa tveir öflugir dreifingaraðilar sýnt áhuga á að sjá um þau mál í Bandaríkjunum og er sú vinna í gangi. Nokkrir erlendir heilsuráðgjafar hafa einnig haft samband við okkur og sýnt áhuga á að fá að selja vörurnar, um leið og tilskilin leyfi liggja fyrir. Allt hjálpar þetta okkur á þessari ekki þrautalausu göngu, sem stofnun og rekstur sprotafyrirtækis er, og gefur okkur áhuga og kjark til að halda áfram að vinna að þessu þarfa og góða verkefni.
Einnig er gott að muna að öll fullburða fyrirtæki voru einhvern tímann bara hugmynd, því það var jú þannig sem þetta ævintýri okkar byrjaði 😉

Fyrirtækið stendur nú frammi fyrir því verkefni að skala framleiðslu sína upp til að geta átt nægjanlegt magn af vörum á lager þegar opnast inn á Bandaríkjamarkað, sem vonir standa til að verði í strax í haust. Við erum þessa dagana að leita eftir áhugasömu fólki til að fjárfesta í fyrirtækinu og sendum hér með þá ósk út í kosmosið og til ykkar ágætu lesendur. Áhugasamir fjárfestar vinsamlegast hafið samband við okkur í gegnum vefsíðuna okkar www.purenatura.is

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0
0

Your Cart